Ég myndi segja að ég væri hamingjusöm ung kona á besta stað í lífinu. En ég hef ekki alltaf verið þar, svo sannarlega ekki. Ég eyddi fjölda ára í það að eltast við ranga hluti, hluti sem ég hélt að myndu færa mér hamingju. Einn draumur var að verða mjó, mikið þráði ég að verða mjó! Jú eða keppa í fitness. Annað hvort. Ef ég færi nógu mikið í ræktina, og píndi mig í það að borða nóg af kjúkling og brokkolí þá kannski myndi ég ná þangað. Ég komst fljótega að því að ég yrði aldrei neitt rosalega mjó, svo ég ákvað að ég myndi þá bara reyna að keppa í fitness. Ætli ég hafi ekki verið um 19 ára þegar ég ákvað að það væri málið. Týpísk sunnudagsköld: Ég ligg upp í sófa með brjálaða magaverki. Afhverju? Jú það var nammidagur og ég var búin að borða pizzu, súkkulaði og snakk með ídýfu. Þennan sunnudaginn ætlaði ég sko bara að fá mér pizzu og láta þar við sitja en svo átti ég erfitt með að stoppa þar sem mér þótti alveg hrikalega langt í næsta nammidag og mér þótti ekki spennandi það sem beið mín daginn eftir í ísskápnum. Í bullandi samviskubiti og með feituna á hæsta stigi fór ég að elda kjúkling og preppa næstu daga í box. Mér leið örlítið betur. Mánudagurinn gengur í garð, í allri sinni dýrð. Ég ákveð að fara á tvær æfingar þann daginn, bæta upp fyrir kvöldið áður. Ég kemst ágætlega í gegnum fyrstu dagana, á þrjóskunni, svo kemur miðvikudagur og ég spring á limminu. Ég fer með vinkonu minni og fæ mér ís. Þá er hvorteðer allt ónýtt! Eina í stöðunni er að fara heim og klára dæmið og panta mér Dominos. Eftir að ég hef slátrað dominos pizzunni alveg sjálf þá ákveð ég að það taki því nú ekki að byrja aftur á hollustunni daginn eftir, ég byrja bara á mánudaginn. Setjum þessa atburðarrás á repeat. Þá ert þú komin með ansi góða mynd á líf mitt í "gamla daga". ![]()
Mér leið ekki vel. Ég sá það ekki þá, en ég sé það í dag þegar ég lít til baka. Ef maður horfir aðeins yfir þetta þá kemur maður strax auga á að þarna er ég ekki á nokkurn hátt að leytast eftir því að vera heilbrigð og í jafnvægi. Ég er að leitast eftir ákveðnu útliti. Það ristir svo rosalega grunnt, það er ekki nóg! Ég lifði í þeirri blekkingu að ég þyrfti að pína mig til þess að vera í mínu besta formi. Ég lifði í þeirri blekkingu að það væri ekki hægt að komast í þrusu form á skynsamlegan hátt. Ég lifði í þeirri blekkingu að þetta myndi gerast hægt, mjög hægt ef ég myndi gera þetta skynsamlega. Þegar þú hefur gert sama hlutinn endurtekið án þess að ná árangri þá fer maður að spyrja sjálfan sig hvað maður sé nú eiginlega að gera vitlaust. Ég ákvað að byrja að taka til í lífi mínu og byrjaði á því að vinna mikið í mér andlega. Það var erfitt en samt sem áður það besta sem ég hef gert. Á þeim tíma var ég ekki að vinna í sambandi mínu við mat, en það átti eftir að verða verkefni seinna meir. Það er nefnilega ekki svo langt síðan ég byrjaði að taka almennilega til í hausnum á mér varðandi samband mitt við mat. Ég misstíg mig oft! Bara síðast núna í gær, ég borðaði of mikið og var að drepast í maganum. Hvað hefur breyst? Jú ég fór ekki í sjálfsniðurrif. Ég mætti á æfingu daginn eftir af því ég elska að æfa, ekki því ég var að refsa mér. Mér þykir of vænt um sjálfan mig til þess að refsa mér. Þetta gerist svo sannarlega ekki á einum degi og ég er alltaf að bæta mig í hverri viku. Ég banna mér ekki neitt, ég er ekki með sérstaka "nammidaga" af fenginni reynslu, þeir hvetja mig til þess að troða í mig einn dag í viku þar sem mig langar mögulega ekki í neitt. Ég passa að næra kroppinn vel, það er algjört lykilatriði. Vel nærður kroppur er minna spenntur fyrir rusl fæði heldur en vannærður kroppur. Ég er ekki hætt að borða nammi eða snakk. Ótrúlegt en satt, þegar ég tók þá ákvörðun að hætta í megrun, hætta í átaki, leyfa mér allt þá byrjaði ég að borða minna af því heldur en áður. Og ég komst í besta form lífs míns, andlega og líkamlega. Hætt í megrun - hætt í "átaki" rúmu ári eftir meðgöngu sonar míns í mínu besta formi. Afþví ég veit að ef ég er að fá mér popp í bíó á mánudegi, þá má ég alveg fá mér eitthvað líka næsta dag ef mig langar til. Og þá þarf ég ekki að troða í mig poppi, nammi og líka ís af því það er svo langt í næsta "treat". Hvaða lífsgæði eru það að vera sífellt í "átaki" eða "megrun"? Svo er það annað, ekki borða mat sem þér þykir vondur. Afhverju ættir þú að gera það? Hugsaðu fram í tímann, eftir 10 ár. Myndir þú vilja lifa lífsstílnum sem þú ert að lifa núna eftir 10 ár? Ef svarið er nei, skoðaðu þá aðeins hvað má bæta. Elskaðu sjálfan þig. Að elska sjálfan sig og að vera með stórt egó er ekki það sama. Ekki rugla því saman. Að elska sjálfan sig er ekki að halda að maður sé betri en einhver annar. Að elska sjálfan sig er að hlúa að sér líkt og maður myndi gera við sinn besta vin. Talaðu jákvætt til þín. Ekki vera stöðugt að einblýna á það sem þú vilt bæta varðandi líkamann þinn. Prófaðu að skrifa niður það sem þér LÍKAR! Þegar að við einblýnum á það sem okkur líkar, þá fáum við meira af því. Trúðu mér. Það er bara eitt eintak af þér, farðu vel með það. Þú átt bara það besta skilið. Ásdis Inga Haraldsdóttir |
Archives
April 2017
Categories |